Samstarf Eldvarnabandalagsins og sveitarfélaga skilar auknum eldvörnum

Samstarf Eldvarnabandalagsins og sveitarfélaga um auknar eldvarnir á vinnustöðum og heimilum starfsmanna hefur skilað auknum eldvörnum. Þetta kemur fram í sameiginlegri greinargerð og árangursmati sem gert var vegna samstarfs við Dalvíkurbyggð og Vestmannaeyjabæ. Svipaðar niðurstöður hafa orðið af samstarfi við Akraneskaupstað, Húnaþing vestra, Akureyri og Fjarðabyggð. Niðurstaðan er sú að samstarfið hafi eflt eldvarnir, hvort sem litið er til stofnana sveitarfélaganna eða heimila starfsmanna.

Samstarf Eldvarnabandalagsins við sveitarfélögin felst í því að sveitarfélögin innleiða eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum samkvæmt gögnum Eldvarnabandalagsins. Eldvarnabandalagið leggur til allt fræðsluefni án endurgjalds en sveitarfélögin og slökkvilið þeirra annast framkvæmdina. Þjálfaðir eru eldvarnafulltrúar til að sinna eigin eldvarnaeftirliti í stofnunum sveitarfélaganna samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins. Allt starfsfólk sveitarfélaganna fær síðan fræðslu um eldvarnir bæði á vinnustað og heima og fær afhenta handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins.

Niðurstöður spurningakannana sem gerðar voru meðal eldvarnafulltrúa Dalvíkurbyggðar og Vestmannaeyjabæjar þegar ár var liðið frá upphafi samstarfsins benda eindregið til þess að verkefnin hafi skilað árangri. Í Dalvíkurbyggð var það einróma álit eldvarnafulltrúanna að störf þeirra hafi leitt til betri eldvarna á vinnustaðnum. Um 90 prósent sögðu að fræðsla sem þeir fengu um eldvarnir heimilisins hafi haft jákvæð áhrif á eldvarnir heima hjá þeim. Hjá Vestmannaeyjabæ telja 73 prósent eldvarnafulltrúa að eldvarnir á vinnustað hafi batnað og 94 prósent telja að fræðsla um eldvarnir heimilisins hafi skilað sér.

Mikill meirihluti eldvarnafulltrúa þessara sveitarfélaga telur að meðvitund um mikilvægi eldvarna á vinnustaðnum hafi aukist og að sveitarfélögin eigi að halda eigin eldvarnaeftirliti áfram að loknu samstarfinu við Eldvarnabandalagið.

Skildu eftir svar