FISK-Seafood efldi eldvarnir á vinnustöðum og heimilum starfsfólks í samvinnu við Eldvarnabandalagið

Samstarf Eldvarnabandalagsins og FISK-Seafood ehf. á Sauðárkróki skilaði sér í auknum eldvörnum bæði á vinnustöðum fyrirtækisins og heimilum starfsfólks. Þetta er meginniðurstaða sameiginlegrar greinargerðar og árangursmats aðila en undir hana rita Stefanía Inga Sigurðardóttir, gæða- og öryggisstjóri FISK-Seafood, Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Skagafjarðar, og Garðar H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins.

Samningur Eldvarnabandalagsins og FISK Seafood um auknar eldvarnir var undirritaður í  október 2020. Í samræmi við samninginn setti FISK sér metnaðarfulla eldvarnastefnu sem gerir meðal annars ráð fyrir að eigið eldvarnaeftirlit verði framkvæmt í húsnæði fyrirtækisins. Skipaðir voru fjórir eldvarnafulltrúar og fengu þeir fræðslu um hlutverk sitt hjá Brunavörnum Skagafjarðar samkvæmt gögnum Eldvarnabandalagsins. Þeir hafa síðan framkvæmt mánaðarlegt og árlegt eigið eldvarnaeftirlit samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins.

Eldvarnabandalagið lagði til allt fræðsluefni án endurgjalds og Brunavarnir Skagafjarðar önnuðust fræðslu. Starfsfólk í landi og hluti af áhöfnum fékk fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heimili í samræmi við ákvæði samningsins. Að sögn Svavars Atla var starfsfólkið áhugasamt og móttækilegt fyrir fræðslunni. Hann telur að fræðslan hafi án vafa leitt til aukinna eldvarna á heimilum starfsfólks og breytt vitund þess um mikilvægi eldvarna.

Stefanía Inga Sigurðardóttir segir vel hafa gengið að framfylgja eldvarnastefnu fyrirtækisins. Við alla logavinnu sé ævinlega gott aðgengi að slökkvibúnaði og slökkvivatni og starfsmenn í viðhaldi séu meðvitaðir um eldhættu sem stafi af logavinnu.

Stefanía Inga segir mörg áþreifanleg dæmi um að verkefnið hafi skilað sér í auknum eldvörnum í húsnæði fyrirtækisins. Í þurrkhúsi hafi flóttaleiðaskiltum til dæmis verið fjölgað, neyðarplan uppfært og flóttaleiðir bættar. Slökkvitæki hafa verið gerð sýnilegri og þeim fjölgað. Mikil áhersla er lögð á að hafa flóttaleiðir greiðfærar og forðast ruslsöfnun í þeim. Slökkvitæki eru yfirfarin árlega. Stefanía Inga segir að fyrirtækið hyggist halda eigin eldvarnaeftirliti áfram enda sé augljós ávinningur af því.

Slökkvilið hefur áfram eftirlit með eldvörnum hjá fyrirtækinu en Svavar Atli segir það nú einfaldara en áður. Stefanía Inga og Svavar Atli eru samdóma um að verkefnið hafi bætt samstarf fyrirtækisins og Brunavarna Skagafjarðar. Fyrir hendi sé nú aukin þekking og aukinn skilningur milli aðila um að tryggja að eldvarnir séu í lagi. Upplýsingaflæði milli aðila hafi einnig aukist.

Helstu niðurstöður greinargerðarinnar eru eftirfarandi:

  • Innleiðing eigin eldvarnaeftirlits hefur almennt gengið vel og skilað auknum eldvörnum á vinnustöðum fyrirtækisins.
  • Fræðsluefni Eldvarnabandalagsins kom að tilætluðum notum.
  • Fræðslu fyrir starfsfólk var vel tekið og skilaði hún sér í auknum eldvörnum á heimilum starfsfólks og aukinni vitund um mikilvægi eldvarna.
  • Verkefnið hefur einfaldað eftirlit slökkviliðs með eldvörnum hjá fyrirtækinu.
  • Verkefnið hefur bætt samskipti fyrirtækisins við slökkvilið og aukið upplýsingaflæði milli aðila. Aukinn skilningur ríkir milli aðila um mikilvægi þess að hafa eldvarnir í lagi.
  • FISK hyggst halda eigin eldvarnaeftirliti áfram í samræmi við eldvarnastefnu fyrirtækisins.

Skildu eftir svar