Hraðfrystihúsið Gunnvör setur sér eldvarnastefnu og eflir eldvarnir

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. í Hnífsdal hefur samið við Eldvarnabandalagið um að taka upp eigið eldvarnaeftirlit samkvæmt gögnum Eldvarnabandalagsins. Fyrirtækið hefur sett sér eldvarnastefnu og mun á næstunni fræða allt starfsfólk um eldvarnir á vinnustaðnum og heima fyrir. Um 150 manns starfa hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru á sjó og í landi. Í vinnslunni er einkum um að ræða fólk af erlendu bergi brotið og eru Pólverjar þar fjölmennastir.

Samkvæmt samkomulaginu innleiðir fyrirtækið verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um logavinnu. Það framkvæmir mánaðarlegt og árlegt eigið eldvarnaeftirlit samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins, sem leggur til allt fræðsluefni án endurgjalds.

Eldvarnastefna Hraðfrystihússins Gunnvarar miðar að því að halda eldvörnum í lagi með reglulegu eftirliti og viðhaldi þannig að öryggi starfsfólks og eignir fyrirtækisins séu sem best tryggð. Kynna ber eldvarnastefnuna fyrir starfsmönnum og undirstrika þarf í henni ábyrgð allra starfsmanna á eftirliti með eldvörnum.

Leiðir til að framfylgja eldvarnastefnunni eru eftirfarandi:

  • Fela eldvarnafulltrúa að framkvæma mánaðarlegt og árlegt eldvarnaeftirlit samkvæmt gátlistum og gera úrbætur í samræmi við ábendingar, sbr. reglugerð nr. 723/2017 um eldvarnir og eldvarnaeftirlit.
  • Greina og draga úr eldhættu í samvinnu við starfsmenn og eftir atvikum utanaðkomandi ráðgjafa.
  • Veita starfsfólki fræðslu um grunnatriði eldvarna og brýna fyrir því að lagfæra það sem aflaga fer eða láta næsta yfirmann vita af hugsanlegum ágöllum.
  • Hafa ávallt í gildi rýmingaráætlun, uppfæra hana eftir þörfum og æfa reglulega eða eigi sjaldnar en árlega.

 

Skildu eftir svar