Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum setur sér metnaðarfulla eldvarnastefnu

Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum (VSV) hefur sett sér metnaðarfulla eldvarnastefnu sem miðar að því að fyrirtækið verði leiðandi fyrirtæki á sviði eldvarna með reglubundnu eftirliti og viðhaldi. Stefnan nær einnig til Hafnareyrar ehf. og eftir atvikum annarra dóttur- og hlutdeildarfyrirtækja VSV. Markmið eldvarnastefnu fyrirtækisins er að auka öryggi starfsfólks, skjólstæðinga og viðskiptavina, draga úr líkum á tjóni á rekstri og eignum og viðhalda fjárfestingu sem liggur í eldvarnabúnaði.

VSV hefur gert samning við Eldvarnabandalagið um eflingu eldvarna með innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits og fræðslu til starfsfólks um eldvarnir á heimilum og vinnustað. Fyrirtækið hyggst kynna eldvarnastefnu sína fyrir starfsfólki og brýna fyrir því ábyrgð alls starfsfólks á eftirliti með eldvörnum. Í samningnum við Eldvarnabandalagið felst að fyrirtækið innleiðir verklag Eldvarnabandalagsins um eigið eldvarnaeftirlit og logavinnu. Eftirlit með eldvörnum verður viðhaft mánaðarlega á öllum starfsstöðvum félagsins auk þess sem ítarlegra eftirlit fer fram árlega.

Markmiðum sínum hyggst VSV ná með eftirfarandi hætti:

  • Að fela eldvarnafulltrúum að framkvæma mánaðarlegt og árlegt eldvarnaeftirlit samkvæmt gátlistum og gera úrbætur í samræmi við ábendingar, sbr. reglugerð nr. 723/2017 um eldvarnir og eldvarnaeftirlit.
  • Að greina og draga úr eldhættu í samvinnu við starfsmenn og eftir atvikum utanaðkomandi ráðgjafa.
  • Að veita starfsfólki fræðslu um grunnatriði eldvarna og brýna fyrir því að lagfæra það sem aflaga fer eða láta næsta yfirmann vita af hugsanlegum ágöllum.
  • Að hafa ávallt í gildi rýmingaráætlun, uppfæra hana eftir þörfum og æfa reglulega eða eigi sjaldnar en árlega.

Framkvæmdaráð ber ábyrgð á framkvæmd eldvarnastefnu og er gert ráð fyrir að hún sé endurskoðuð á þriggja ára fresti.

 

Skildu eftir svar