Eftir Vigdísi Häsler og Garðar H. Guðjónsson.
Nær þriðjungur bænda eða rúmlega 30 % telja að ekki sé nægur og greiður aðgangur að slökkvivatni í nálægð við útihús, samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur einnig fram að stór hluti bænda býr í talsverðri fjarlægð frá næstu slökkvistöð og getur því liðið talsverður tími frá því slökkviliði berst útkall uns slökkvistarf getur hafist. Um það bil 20 mínútur geta liðið frá því slökkvilið fær boð um útkall uns slökkvistarf á vettvangi getur hafist ef aka þarf 20 kílómetra leið á vettvang og nærri 30 mínútur ef fara þarf 30 kílómetra. Er hér miðað við bestu akstursaðstæður. Því er afar mikilvægt að bændur hafi búnað og aðgang að slökkvivatni til að tryggja fyrstu viðbrögð á vettvangi áður en aðstoð berst.
Brotalamir í eldvörnum
Talsverðar brotalamir eru á eldvörnum í úti- og gripahúsum bænda samkvæmt könnun Gallup. Ljóst er að ástand viðvörunarbúnaðar, brunahólfunar og slökkvibúnaðar er slæmt hjá mörgum.
- Þannig nefna 62% bænda að ástand viðvörunarbúnaðar sé frekar slæmt eða mjög slæmt og þar af nefna 42,6% að ástandið sé mjög slæmt.
- Næstum því helmingur svarenda segir ástand slökkvibúnaðar frekar eða mjög slæmt.
- Þá kemur í ljós að aðeins 27,3% hafa gert rýmingaráætlun fyrir gripahús.
Brýnt er að bændur leggi sig fram um að bæta úr þessu ástandi.
Áhyggjur af frauðplastinu
Slökkvilið hafa sérstakar áhyggjur af slökkvistarfi í útihúsum þar sem eldfim efni eins og frauðplast eru notuð til einangrunar. Samkvæmt könnun Gallup reynist það vera tilfellið í um 40% tilvika. Nái eldur að læsa sig í frauðplast breiðist hann út með ógnarhraða og eru dæmi um að slökkvistarf hafi í slíkum tilvikum verið afar erfitt og jafnvel vonlaust.
Reykur frá frauðplasti er baneitraður og mjög hættulegur mönnum og skepnum langt út fyrir brunastað. Því þarf alltaf að nota reykköfunartæki við slökkvistarf jafnt innan- sem utanhúss.
Notkun frauðplasts til einangrunar í útihúsum er langalgengust á Austurlandi eða sem nemur 52 af hundraði.
Eldvarnabúnaður á sérkjörum fyrir bændur
Eldvarnamiðstöðin býður félagsmönnum í Bændasamtökum Íslands nú að kaupa eldvarnabúnað með 20% afslætti og frírri heimsendingu. Tilboðið er sett fram vegna samstarfs Bændasamtakanna og Eldvarnabandalagsins um að efla eldvarnir í landbúnaði og á heimilum í dreifbýli. Tilboð Eldvarnamiðstöðvarinnar gildir til og með 31. maí næstkomandi. Félagsmenn geta nálgast tilboðssíðu á oger.is samkvæmt upplýsingum á Bændatorgi. Þar er að finna nánari upplýsingar um eldvarnir á heimilum og í landbúnaði og leiðbeiningar um hvaða eldvarnabúnaður hentar best eftir gerð og stærð húsnæðis og véla.
Tilboðið nær til margvíslegs búnaðar sem hentar félagsmönnum jafnt á heimilum og í úti- og gripahúsum. Um er að ræða samtengda og staka reyk- og hitaskynjara, mismunandi gerðir slökkvitækja, eldvarnateppi, sinuklöppur og fleira. Bændasamtökin og Eldvarnabandalagið hvetja félagsmenn í Bændasamtökunum til að notfæra sér tilboð Eldvarnamiðstöðvarinnar og nota þetta tækifæri til að búa heimili og útihús fullnægjandi eldvarnabúnaði.
Vigdís er framkvæmdastjóri Bændasamtakanna.
Garðar er framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins
Greinin birtist í Bændablaðinu í dag.