Eftir Hermann Sigurðsson og Garðar H. Guðjónsson.
Eldvarnir á heimilum eru einföld og ódýr öryggisráðstöfun. Það getur reynst dýrkeypt að vanrækja þær. Hér á landi farast að meðaltali um tvær manneskjur í eldsvoðum á ári hverju. Miklu fleiri verða fyrir líkamlegu og andlegu heilsutjóni af völdum eldsvoða ár hvert. Svo ekki sé minnst á eignatjónið. Hér glatast að meðaltali á hverju ári um tveir milljarðar króna í eldsvoðum.
Það er því ekki að ástæðulausu sem Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna stendur fyrir Eldvarnaátakinu á hverju ári, jafnan í lok nóvember og í aðdraganda hátíðanna. Átakið er kröftug viðbót við forvarnastarf sem unnið er á vegum Eldvarnabandalagsins, slökkviliðanna, slysavarnadeilda og fleiri árið um kring. Eldvarnaátakið beinist að börnum í þriðja bekk grunnskólanna og fjölskyldum þeirra. Slökkviliðsmenn um allt land heimsækja börnin í skólana og fræða þau um eldvarnir.
Reykskynjarar bjarga mannslífum
Þegar eldur kemur upp á heimili hefur heimilisfólk oft mjög skamman tíma til að forða sér út. Stundum líða bara nokkrar mínútur uns íbúð fyllist af reyk og verður jafnvel alelda. Skammt getur verið milli feigs og ófeigs í þessu sambandi. Því er algjört lykilatriði að á heimilum séu nægjanlega margir virkir reykskynjarar til að vara fólk við hættunni, vekja það af svefni og gefa svigrúm til að bjarga lífi og limum.
Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum. Gott er að hafa reykskynjara samtengda, að minnsta kosti á stærri heimilum. Prófa á reykskynjara að minnsta kosti árlega og skipta þarf árlega um rafhlöðu í reykskynjurum með 9 v rafhlöðu. Endurnýja skal reykskynjara á tíu ára fresti.
Tvær flóttaleiðir eða fleiri
Því miður eru dæmi um að misbrestur sé á að fólk hafi tvær eða fleiri flóttaleiðir úr brennandi íbúð. Skortur á flóttaleiðum getur orðið fólki að fjörtjóni eins og nýleg dæmi sýna. Í sumum tilvikum er unnt að fjölga flóttaleiðum með því að koma fyrir neyðarstiga (fellistiga) af efri hæðum.
Við hvetjum fjölskyldur til að gera einfalda flóttaáætlun og ákveða stað til að hittast á utandyra ef rýma þarf heimilið. Ef eldur er í stigagangi fjölbýlishúss á fólk að halda sig inni í íbúðinni og láta vita af sér við glugga eða á svölum.
Eldvarnateppi og slökkvitæki
Margir hafa komið í veg fyrir stórtjón með notkun slökkvibúnaðar, ekki síst þar sem eldur hefur komið upp við eldamennsku. Eldvarnateppi á að vera sýnilegt á vegg í eldhúsi en þó ekki of nærri eldavél. Reynið ekki að slökkva eld í olíu með vatni. Það gerir illt verra. Notið eldvarnateppið.
Slökkvitæki á að vera sýnilegt við helstu flóttaleið og hafa á slökkvitæki við alla útganga í fjölbýli. Fylgja þarf leiðbeiningum framleiðanda um viðhald tækjanna. Hringja ber tafarlaust í 112 ef eldur kemur upp og mikilvægt er að leggja sjálfan sig eða aðra aldrei í hættu við slökkvistarf.
Með aðgát í daglegri umgengni og viðeigandi eldvarnabúnaði getum við dregið verulega úr líkum á að eldur komi upp og valdi tjóni á lífi og eignum. Við hvetjum fólk því eindregið til að huga að eldvörnum heimilisins. Það er ekki síst mikilvægt nú í aðdraganda hátíðanna.
Hermann er framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Garðar er framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins og verkefnastjóri Eldvarnaátaksins