Dagur reykskynjarans er í dag, 1. desember. Eldvarnabandalagið hvetur almenning til að nota daginn til að prófa reykskynjarana á heimilinu og skipta um rafhlöðu í þeim ef þarf. Þeim sem ekki hafa nægilega marga reykskynjara á heimilinu er bent á að bæta strax úr því.
Þegar eldur kemur upp á heimili hefur heimilisfólk oft mjög skamman tíma til að forða sér út. Stundum líða bara nokkrar mínútur uns íbúð fyllist af reyk og verður jafnvel alelda. Skammt getur verið milli feigs og ófeigs í þessu sambandi. Því er algjört lykilatriði að á heimilum séu nægjanlega margir virkir reykskynjarar til að vara fólk við hættunni, vekja það af svefni og gefa svigrúm til að bjarga lífi og limum.
- Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum.
- Gott er að hafa reykskynjara samtengda, að minnsta kosti á stærri heimilum.
- Prófa á reykskynjara að minnsta kosti árlega og skipta þarf árlega um rafhlöðu í reykskynjurum með 9 v rafhlöðu.
- Endurnýja skal reykskynjara á tíu ára fresti.