Almannavarnir, sóttvarnir og eldvarnir

Eftir Davíð Sigurð Snorrason og Garðar H. Guðjónsson

Nú þegar þjóðin er öll í almannavörnum og sóttvörnum má ekki gleyma öðrum vörnum sem geta skipt sköpum um líf og heilsu fólks, svo ekki sé minnst á eignir. Það á við um eldvarnir. Þvert á gardarDavíðmóti er nú sérstök ástæða til að huga að eldvörnum heimila þegar fjölskyldur eru meira heimavið en vanalega. Þeir sem eru heimavinnandi og/eða í sóttkví ættu að gefa sér tíma til að fara yfir ástand eldvarna á heimilinu og fara yfir þær með fjölskyldunni.

Reykskynjarar

Tveir eða fleiri reykskynjarar eiga að vera á hverju heimili en best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum. Þá þarf að prófa reglulega og yfirleitt þarf að skipta um rafhlöðu árlega. Nú er kjörið að gefa sér tíma til að prófa skynjarana á heimilinu og fullvissa sig um að þeir muni virka ef á reynir.

Sömu reglur um notkun og staðsetningu reykskynjara gilda fyrir orlofshús. Þeir sem dvelja í orlofshúsum eða hyggjast gera það á næstunni ættu að ganga strax í að fara yfir skynjarana í húsinu og gera úrbætur ef þarf. Sérstaklega er mikilvægt að huga að þeim sem sofa á svefnlofti. Þeir verða að fá viðvörun svo þeir geti yfirgefið húsið tímanlega ef eldur kemur upp.

Flóttaleiðir og flóttaáætlun

Nauðsynlegt er að fjölskyldan geri og æfi áætlun um hvernig yfirgefa á heimilið ef eldur kemur upp. Foreldrar og forráðamenn bera að sjálfsögðu ábyrgð á rýmingu heimilisins. Við gerð flóttaáætlunar þarf að hafa eftirfarandi í huga:

  • Tvær greiðar leiðir eiga að vera út úr íbúðinni og húsinu. Komið fyrir neyðarstiga þar sem þörf krefur.
  • Að allir viti að þeir eiga að fara út um leið og elds verður vart. Hringið á slökkvilið í 112 eins fljótt og auðið er.
  • Ákveða þarf fyrirfram stað þar sem allir hittast þegar út er komið. Þannig má ganga úr skugga um hvort allir hafi skilað sér út.

Slökkvibúnaður

Slökkvitæki á að vera við aðalútgönguleið. Það á að vera sýnilegt og aðgengilegt svo allir viti hvar það er ef nauðsynlegt reynist að nota það. Leiðbeiningar um notkun og viðhald eiga að vera á tækinu. Komi upp eldur er þó nauðsynlegt að hafa eftirfarandi í huga:

  • Setjið ykkur sjálf eða aðra aldrei í hættu.
  • Hringið ávallt í 112 og óskið eftir aðstoð slökkviliðs.
  • Börn eiga að koma sér strax út en ekki reyna að slökkva eld.
  • Ef ekki er unnt að slökkva eld er brýnt að yfirgefa rýmið og loka því ef hægt er.

Matseld og notkun raftækja í eldhúsi er ein helsta orsök elds á heimilum. Nauðsynlegt er því að hafa eldvarnateppi á sýnilegum stað í eldhúsinu. Fjölmörgum hefur tekist að kæfa eld í fæðingu með eldvarnateppi og koma þannig í veg fyrir stórtjón.

Förum varlega

Þegar fólk er meira heima en vanalega eykst eldhætta vegna daglegrar umgengni á heimilinu. Gæta þarf sérstakrar varúðar við matseld og er mikilvægt að hafa í huga að fullorðnir bera ábyrgð á að öryggis sé gætt við matseld og bakstur. Snjalltæki má ekki skilja eftir þar sem þau geta valdið eldhættu, svo sem í sófa eða rúmi. Sérstaklega er þetta mikilvægt þegar þau eru í hleðslu. Að venju þarf að fara sérstaklega gætilega með opinn eld, kertaljós, arineld og þess háttar.

Leiðbeiningar um eldvarnir heimila er að finna í handbók Eldvarnabandalagsins hér á vefnum. Við biðlum til fólks að kynna sér þær og fylgja þeim. Þannig verður heimilið miklu öruggari staður til að vera á.

Davíð er forstöðumaður brunamála hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og formaður stjórnar Eldvarnabandalagsins. Garðar er framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins. Greinin birtist á vef Fréttablaðsins 1. apríl.

 

Skildu eftir svar