Síldarvinnslan hf. og Eldvarnabandalagið hafa gert með sér samkomulag um auknar eldvarnir hjá fyrirtækinu og starfsfólki þess. Síldarvinnslan skuldbindur sig til að innleiða eigið eldvarnaeftirlit innan fyrirtækisins og veita öllu starfsfólki fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heima fyrir. Eldvarnabandalagið leggur til allt fræðsluefni án endurgjalds og hefur Slökkvilið Fjarðabyggðar tekið að sér að annast fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa Síldarvinnslunnar og annað starfsfólk. Allir starfsmenn fá afhenta handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins en hún var nýlega þýdd á ensku og pólsku.
Síldarvinnslan verður fyrsta fyrirtækið í sjávarútvegi til að innleiða eigið eldvarnaeftirlit í samstarfi við Eldvarnabandalagið og samkvæmt gögnum þess, en áður hafa sveitarfélög og stofnanir víða um land átt sambærilegt samstarf við Eldvarnabandalagið með góðum árangri. Fyrirtækið uppfyllir með þessu ákvæði laga og reglugerðar sem kveða á um skyldu til að tilnefna eldvarnafulltrúa og halda úti eigin eldvarnaeftirliti. Hluti af samkomulaginu er að Síldarvinnslan innleiðir verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um logavinnu og setur fyrirtækinu sérstaka eldvarnastefnu að fyrirmynd Eldvarnabandalagsins.
Samkomulag aðila er gert til 12 mánaða. Það gerir ráð fyrir að Síldarvinnslan innleiði eigið eldvarnaeftirlit. Tilnefndir verða eldvarnafulltrúar fyrir allar deildir fyrirtækisins og hvert skip og fá þeir fræðslu og þjálfun samkvæmt fræðsluefni Eldvarnabandalagsins. Eldvarnafulltrúar annast mánaðarlegt og árlegt eftirlit með eldvörnum samkvæmt gátlistum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út. Að 12 mánuðum liðnum verður farið yfir árangur af verkefninu og gefin út sameiginleg greinargerð um hvernig til tókst.
Myndin var tekin þegar Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf., og Garðar H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins, skrifuðu undir samkomulagið í Neskaupstað 5. mars síðastliðinn.