Brunavarnir á Austurlandi hafa á undanförnum árum komið að eldsvoðum í gripahúsum sem einangruð voru með frauðplasti og er tilgangur þessarar samantektar að vekja athygli allra þeirra sem kunna að hafa slíkt einangrunarefni í byggingum, hvaða nafni sem þær nefnast, á hættunni sem er því samfara.
Slökkviliðin innan vébanda Brunavarna á Austurlandi eru fimm og fengu það hlutverk fyrir nokkrum árum að brenna íbúðarhús ásamt stóru fjósi á Fljótsdalshéraði, en fjósið var einangrað með frauðplasti í þaki. Eftir að æfingunni í íbúðarhúsinu lauk létum við eldinn ná fjósinu og skipti engum togum að um leið og eldurinn náði plastinu í þakinu hófst hraður bruni og hitamyndun svo hröð að við trúðum vart okkar eigin augum.
Um leið hófst eldrigning frá plastinu sem eins og myndaði eldvegg þvert yfir húsið og fór eldveggurinn hratt eftir endilöngu húsinu og kveikti í öllu sem niðri var. Það liðu aðeins 12 mínútur þar til allir gluggar voru sprungnir út og eldsúlan sem þá myndaðist upp um strompinn náði alveg tveimur til þremur metrum á hæð. Eftir 20 mínútur var allt brunnið sem brunnið gat í húsinu.
Baneitraður reykur
Reykur frá frauðplasti er baneitraður og mjög hættulegur mönnum og skepnum langt út fyrir brunastað. Því þarf alltaf að nota reykköfunartæki við slökkvistarf jafnt innan- sem utanhúss. Samkvæmt framanrituðu er alveg ljóst að slökkvilið koma alltaf of seint þar sem plastbruni í þökum á sér stað og engu verður bjargað.
Nú er það staðreynd að frauðplast er í mjög mörgum gripahúsum hér á landi og ekki síst á Austurlandi þar sem starfrækt hefur verið plastverksmiðja til fjölda ára. Rétt er að fram komi að aldrei hefur verið leyft að nota óvarið frauðplast sem einangrun í gripahús. Með tilvísun til úttekta á útihúsum á þeim svæðum sem Eldstoðir ehf. sjá um, það er Snæfellsnes, Dalabyggð, Reykhólasveit og Austur Húnavatnssýsla, hefur komið í ljós að um það bil 70 prósent þeirra hafa verið einagruð með plasti neðan í loft eða í gafla húsanna innanhúss. Sama gildir örugglega um fleiri sveitarfélög vítt og breitt um landið. Eldvarnaeftirlit sveitarfélaga geta krafist þess að plasteinangrun sé fjarlægð úr gripahúsum og hafa til þess tiltæk þvingunarúrræði, en hafa ekki látið á þau úrræði reyna.
Miklar breytingar hafa átt sér stað í landbúnaði á undanförnum árum þar sem meðal annars hlöður, sem eiga að vera eldhólfaðar frá gripahúsum, hafa breyst í vélageymslur og viðgerðaraðstöðu og jafnvel hleðsluaðstöðu fyrir rafknúin verkfæri eins og lyftara. Ekki er óalgengt að þar safnist upp mikið magn af rúlluplasti og allskonar öðru eldfimu efni, jafnvel olíu. Allt stangast þetta á við byggingareglugerð.
Hvað er til ráða?
Það er mikilvægt að fylgjast grannt með ástandi rafmagns í húsum og tækjum og að allur frágangur þess sé vandaður. Alltaf er best að hafa einn aðalrofa sem slegið er út um leið og gripahús eru yfirgefin, ef því verður við komið.
Nú þurfa bændur að beita sér fyrir því að koma eldvarnaeftirlitinu til aðstoðar og gangast fyrir landsátaki til þess að fjarlægja þetta skaðræðisefni, sem frauðplastið er, úr öllum gripahúsum í landinu. Þeir eru jafnframt hvattir til að kynna sér reglugerð um eldvarnir og eldvarnareftirlit nr. 723 frá 2017, sérstaklega 2. kafla um “Kröfur til eiganda og forráðamanns”. Þar kemur skýrt fram að eigendur bera alla ábyrgð á sínum byggingum og að eldvarnir séu samkvæmt lögum og reglum.
Baldur Pálsson, fyrrverandi slökkviliðsstjóri, og Haraldur Geir Eðvaldsson, núverandi slökkviliðsstjóri Brunavarna á Austurlandi, tóku saman fyrir Eldvarnabandalagið. Greinin birtist áður í Bændablaðinu.