Eldvarnir vegna rafmagns í landbúnaði

Eldvarnir á lögbýlum skipta almennt miklu máli, en þá er ekki einungis verið að tala um eldvarnir í landbúnaðarbyggingum heldur einnig í íbúðarhúsum. Aukin vitundarvakning skiptir máli og getur hún komið í veg fyrir mögulega eldsvoða. Oft hagar svo til að býli eru í talsverðri fjarlægð frá slökkvistöð og getur þá tekið töluverðan tíma fyrir slökkvilið að komast á vettvang. Lengri viðbragðstími getur í sumum tilfellum þýtt auknar eldvarnir, það er umfram lágmarkskröfur í reglugerðum, til að koma í veg fyrir bruna eða til að lágmarka það tjón sem getur orðið. Ein af algengustu orsökum eldsvoða á Íslandi eru rafmagnsbilanir og röng notkun og uppsetning raftækja. Þess vegna er mikilvægt að frágangur á rafmagni sé góður og vandaður. Hér verður stiklað á stóru varðandi helstu atriði sem hafa ber í huga við eldvarnir gegn rafmagnsbrunum.

Raftæki og frágangur á rafmagni

 Rafmagnsbilanir og röng notkun eða uppsetning raftækja leiðir oft til eldhættu. Rafbúnaður, raflagnir og tæki í landbúnaðarbyggingum eru gjarnan undir miklu álagi. Raki í lofti, ryk og titringur eða slit hefur áhrif á endingartíma og öryggi tækja. Allur rafbúnaður skal vera viðurkenndur og frágangur þarf að taka mið af aðstæðum á hverjum stað.

Gæta þarf þess að laustengd vinnuljós (ljósahundar) séu ekki nálægt heyi eða öðru auðbrennanlegu efni. Fylgjast þarf vel með ástandi á rafmagnssnúrum og tenglum. Gamlan og úr sér genginn búnað þarf að endurnýja.

Ætíð skal leita aðstoðar fagmanna við uppsetningu á rafbúnaði, við reglulega yfirferð á rafmagnstöflum eða við breytingar á rafmagni í útihúsum. Það hefur gefist vel að nota hitamyndavél í eldri byggingum til þess að meta hvort óeðlilegur hiti myndast út frá lélegum rafmagnslögnum eða tækjabúnaði.

Rafmagnsinntak og rafmagnstafla

 Margir eldsvoðar eiga upptök sín í rafmagnstöflum. Ýmist losna skrúfur eða raki verður til þess að eyðileggja leiðslur eða festingar. Nauðsynlegt er að loka skápum vel og að tryggja að raki eigi ekki greiða leið inn í töfluna. Oft eru rafmagnsleiðslur lagðar beint upp úr töfluskápum. Í þeim tilfellum er meiri hætta á að vatn komist niður með raflögnum og inn í töfluna.

Mjög mikilvægt er að frágangur rafmagnsbúnaðar sé óaðfinnanlegur og að búnaðurinn allur ryk- og rakaþéttur. Rafmagnstöflur eiga að vera í stál- eða plastskápum og staðsettar á vegg úr óbrennanlegum efnum. Raflagnaefni sem notað er í landbúnaðarbyggingum á að vera sérstaklega viðurkennt til nota við slíkar aðstæður.

Jarðtenging og bilunarstraumrofar

 Fyrir eldri byggingar þarf að ganga úr skugga um að þær séu jarðtengdar og með bilanastraumrofa (lekaliða). Bilunarstraumrofinn (lekaliðinn) vakir yfir rafkerfinu á býlinu og slær rafmagninu út ef straumur leiðir til jarðar. Lekaliðinn getur komið í veg fyrir stórslys og verndað bæði manneskjur og búpening frá því að fá lífshættulegan straum.

Í eldri rafmagnstöflum eru bræðivör (öryggi) sem skipta þarf um þegar þau springa en í nýrri töflum eru varrofar sem slá út við bilun eða of mikið álag.

Brunaviðvörunarkerfi

Til að tryggja öryggi búfjársins er best að hafa fullkomið brunaviðvörunarkerfi í húsinu. Ein gerð viðvörunarkerfa hefur reynst sérstaklega vel í gripahúsum en þar er um að ræða reyksogskerfi. Þau eru þannig gerð að einföld röralögn er lögð um húsið. Göt eru boruð á rörin, skv. forskrift og þau tengd við dælu sem sogar loftsýni stöðugt inn í rörin, gegnum rakagildru og síu, að reykskynjara í stjórnstöð kerfisins. Verði vart við reyk í loftsýninu gerir stjórnstöðin viðvart með því að senda boð á vaktstöð og með því að hringja í ákveðin símanúmer. Jafnframt er hægt að vera með sjálfvirka opnun á hurðum og jafnvel sírenu þar sem slíkt hentar.

Nokkur slík kerfi hafa verið sett í gripahús hér á landi og fer þeim nú fjölgandi enda er reynslan góð.

Kristján Vilhelm Rúriksson, verkfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, tók saman fyrir Eldvarnabandalagið. Greinin birtist áður í Bændablaðinu.

Skildu eftir svar