Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við mbl.is að eldsvoðar hafi verið óvenjulega margir að undanförnu og ætti það að vera fólki tilefni til að fara yfir eldvarnir. „Þetta er óvenjulega mikið,“ hefur mbl.is eftir Jóni Viðari. Vefurinn rifjar upp að meðal útkalla að undanförnu megi nefna eldsvoða í einbýlishúsi á Sogavegi og útkall vegna eldsvoða í kísilverksmiðju Elkem á Grundartanga. Þá séu tvö alvarlega slösuð eftir að eldur kom upp í íbúð í Mávahlíð í síðustu viku.
Sömu sögu hafi verið að segja á landsbyggðinni. Brunavarnir Suðurnesja hafi til að mynda verið kallaðar út aðfararnótt sunnudags þegar eldur kom upp í fjölbýlishúsi við Framnesveg í Reykjanesbæ. Eldur kom einnig upp í starfsmannaaðstöðu við Votmúla sunnan við Selfoss nýverið og á laugardag var Slökkvilið Akureyrar kallað út vegna elds í kjallaraíbúð við Brekkugötu. Enn má nefna að Brunavarnir Árnessýslu slökktu eld í hjólhýsabyggð á Laugarvatni í síðustu viku.
Jón Viðar segir ekki hægt að nefna sérstaka ástæðu fyrir þessum fjölda útkalla að undanförnu. „Svona tímabil hafa komið áður, en þetta eru mismunandi atburðir, þarna erum við bæði að tala um fyrirtæki og íbúðarhúsnæði. Það er enginn samnefnari,“ hefur mbl.is eftir Jóni Viðari.
Hann segir að útköllin síðustu daga ættu að vera fólki víti til varnaðar og minnir á mikilvægi þess að hafa eldvarnir í lagi. „Þetta er ágætis tækifæri til að minna fólk á brunavarnir almennt. Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um viðvaranir, reykskynjara og slíka hluti því mikilvægast af öllu er að fá viðvörun um einhvern atburð þannig að menn geti brugðist við og bjargað sér og sínum.“